Ótakmörkuð skattskylda

Ef þú ert búsett(ur) í Svíþjóð, dvelst hér stöðugt eða hefur náin tengsl við landið berð þú ótakmarkaða skattskyldu hér. Þetta þýðir að þú ert skattskyld(ur) vegna allra tekna og eigna bæði hér og erlendis. Ákvæði skattasamninga við önnur ríki geta valdið takmörkun á rétti Svíþjóðar til skattlagningar.

Búseta í Svíþjóð

Þeir teljast búsettir í Svíþjóð sem hafa raunverulega búsetu hér. Þetta gildir venjulega um alla sem eru með lögheimili hér eða eru hér allar nætur. Sá sem flytur til Svíþjóðar ber ótakmarkaða skattskyldu hér frá komudegi.

Lengri dvöl en 6 mánuðir (stöðug dvöl)

Til að dvöl hér teljist stöðug verður hún að vara a.m.k. sex mánuði. Áramót hafa engin áhrif á dvalartímann og stutt hlé á dvölinni hefur enga þýðingu í þessu sambandi.

Til að dvöl teljist stöðug verður þú að gista hér. Ef þú kemur t.d. daglega frá grannlandi til vinnu er dvöl þín þess vegna ekki stöðug þótt þessi tilhögun standi yfir í langan tíma.

Sá sem dvelst stöðugt í Svíþjóð telst bera ótakmarkaða skattskyldu hér frá fyrsta degi samhangandi dvalar hér.

Hvenær fellur skattskyldan niður?

Þú getur talist áfram ótakmarkað skattskyld(ur) hér þótt þú flytjir úr landi. Þetta á við um þá sem hafa verið búsettir hér og hafa náin tengsl við landið. Getir þú ekki sýnt fram á að þú hafir ekki náin tengsl við landið telst þú hafa þau í fimm ár frá brottför ef þú er sænskur ríkisborgari eða hefur búið í Svíþjóð í a.m.k. 10 ár. Atriði sem flokkast undir náin tengsl eru t.d. að fjölskyldan búi hér, þú eigir bústað eða sért með rekstur eða fyrirtæki hér. Aðrir þættir geta skipt máli og við matið er litið á heildarmyndina.

Ef þú hefur engin náin tengsl við landið eftir flutninginn fellur skattskyldan niður við brottför frá Svíþjóð. Annars fellur hún niður þegar tengslin teljast ekki lengur náin. Hún getur t.d. fallið niður þegar þú selur bústað þinn.

Þú getur áfram verið skattskyld(ur) vegna tekna sem verða til í Svíþjóð þótt ótakmörkuð skattskylda sé fallin niður. Sjá kaflann um takmarkaða skattskyldu.