Skattþrep og persónuafsláttur

Ef þú ert með laun sem eru skattskyld á Ísland, ber launagreiðanda þínum að halda eftir staðgreiðsluskatti við hverja útborgun launa. Frá og með 1. janúar 2016 eru ekki lengur gefin út skattkort sem sýna hvaða skattþrep launagreiðandinn á að nota. Þess í stað verður þú sjálfur að upplýsa hann um í hvaða skattþrepi á að reikna skattinn ef ekki á að reikna hann í því lægsta, þannig að réttur staðgreiðsluskattur sé dregin af laununum.

Hvað er persónuafsláttur?

Persónuafsláttur er ákveðin árleg upphæð sem skipt er niður á 12 mánuði ársins og er eingöngu nýttur til frádráttar á reiknuðum skatti af launum eða bótum.

Réttur til persónuafsláttar fylgir yfirleitt lögheimilisskráningu á Íslandi, en það er þó ekki algild regla.

Sé persónuafslátturinn ekki fullnýttur einn mánuðinn safnast hann upp og má þá nota hann í næsta mánuði eða seinna á árinu.  Makar geta nýtt sér afslátt hvors annars. Ónýttur persónuafsláttur flyst ekki á milli ára.

Þeir aðilar sem koma til tímabundinnar dvalar og flytja ekki lögheimili sitt til landsins, eiga rétt á persónuafslætti á móti skatti af launum á meðan á dvölinni stendur. Í slíkum tilvikum reiknast persónuafslátturinn sem ákveðin upphæð á dag.

Þú þarft sjálfur að upplýsa launagreiðanda þinn um hvort eigi að nota persónuafslátt við útreikning staðgreiðslu af launum og þá hvort nota eigi fullan mánaðarlegan afslátt eða aðeins hluta hans t.d. vegna þess að þú er með laun frá fleiri en einum launagreiðanda. Ef þú átt uppsafnaðan persónuafslátt eða villt nýta persónuafslátt maka verður þú einnig að upplýsa launagreiðanda þinn um það. 

Staðgreiddur skattur vegna vinnu í öðru norrænu landi og yfirfærsla skatta (aðstoðarsamningurinn)

Ef þú starfar fyrir vinnuveitanda í heimalandi þínu, en innir vinnuna af hendi í öðru norrænu landi, átt þú eða vinnuveitandi þinn að senda inn eyðublaðið NT1 eða NT2 til skattstofu í því landi sem vinnuveitandinn er búsettur í.
Þetta þarf að gera til að tryggja að skattur verði dregin af í réttu landi. Eyðublaðið NT1  á að nota þegar þú átt að greiða skattinn í heimalandinu, t.d. þegar þú dvölin fer ekki yfir 183 daga í vinnulandinu. Eyðublaðið NT2 á að nota þegar þú átt að greiða skattinn í vinnulandinu. Það á við ef þú dvelur lengur en 183 daga í vinnulandinu, vinnuveitandi þinn er með fasta starfstöð í vinnulandinu og í ákveðnum löndum þegar um er að ræða starfsmannaleigur

Í vissum tilvikum geta skattyfirvöld yfirfært skattgreiðslur á milli landa samkvæmt aðstoðarsamningnum. Samningurinn felur í sér að ef í ljós kemur að skattur, sem haldið hefur verið eftir af launatekjum í einu norrænu ríki, á í raun að greiðast í öðru norrænu ríki, skal fyrrnefnda ríkið yfirfæra skattinn til þess ríkis. Yfirfærður skattur skal greiðast tímanlega þannig að þú þurfir ekki að greiða kostnað og vexti af yfirfærðu skattgreiðslunum.

Ef yfirfærði skatturinn nægir ekki fyrir skattgreiðslunum í hinu landinu þá þarft þú sjálfur að greiða mismuninn með tilheyrandi kostnaði og vöxtum af þeim hluta greiðslunnar.