Býrð þú í Noregi en starfar í öðru norrænu landi fyrir einkaaðila?

Þetta á við um þig sem býrð í Noregi og vinnur í einkafyrirtæki annars staðar á Norðurlöndum. Upplýsingarnar varða einungis skattlagningu atvinnutekna.

Upplýsingarnar eiga ekki við þig sem vinnur hjá opinberum aðila, vinnur sem sjómaður, vinnur um borð í flugvél, vinnur á dönsku landgrunni eða hefur tekjur sem lista- eða íþróttamaður.

Vinnuveitandi þinn er frá vinnulandinu

Þú átt að greiða skatt af launatekjum þínum í vinnulandinu.  Ákveðnar undantekningar eru á þessari reglu, sjá hér að neðan undir fyrirsögninni „sérreglur“.

Vinnuveitandi þinn er frá öðru landi en vinnulandinu

Þú átt að greiða skatt af launatekjunum í vinnulandinu ef eitt af eftirtöldum skilyrðum er uppfyllt:

  • þú dvelur lengur en 183 daga í vinnulandinu á 12 mánaða tímabili
  • vinnuveitandi þinn er með fasta starfsstöð í vinnulandinu
  • þú ert leigður út til fyrirtækis í vinnulandinu

Þú átt eingöngu að greiða skatt í Noregi ef ekkert af ofannefndum skilyrðum er uppfyllt. Ákveðnar undantekningar eru á þessari reglu, sjá hér að neðan undir fyrirsögninni „sérreglur“.

Skattlagning i Noregi

Launatekjur sem eiga að skattleggjast í öðru norrænu landi eru líka skattskyldar í Noregi. Þér ber að gera grein fyrir tekjum á norska skattframtalinu. Þú getur óskað eftir lækkun á norska skattinum svo að launin verði ekki skattlögð í Noregi.

Sérreglur

Landamærareglan (grensegjengere)

Ef þú býrð í norsku sveitarfélagi sem liggur að landamærum Svíþjóðar og vinnur í sænsku sveitarfélagi sem liggur að landamærum Noregs, eiga reglur fyrir landamærabúa við um þig. Sama gildir ef þú býrð í Noregi í sveitarfélagi sem liggur að landamærum Finnlands og vinnur í finnsku sveitarfélagi sem liggur að landamærum Noregs. Reglur fyrir landamærabúa fela í sér að þú greiðir eingöngu skatt af laununum í Noregi. Skilyrði fyrir þessari reglu er að þú dveljir á heimili þínu í Noregi, minnst tvo daga í viku með einnar nætur dvöl.

Nýja Svínasundsbrúin

Ef þú býrð í Noregi  og starfar við viðhald og rekstur nýju Svínasundsbrúarinnar greiðir þú eingöngu skatt af launatekjunum í Noregi, jafnvel þó vinnan fari fram í Svíþjóð.

Stjórnarlaun

Þú átt að greiða skatt í Noregi  ef þú færð greiðslu vegna stjórnarvinnu (stjórnarlaun) í félagi í öðru norrænu landi. Tekjurnar geta einnig verið skattlagðar í því landi sem félagið er staðsett í. Þarna skiptir ekki máli hvar vinnan fór fram.

Ef þú hefur greitt skatt í öðru norrænu landi, getur þú óskað eftir því að sá skattur sem þú greiddir þar sé dreginn frá norskum skatti, svokölluð frádráttarregla. Frádrátturinn er takmarkaður við þann skatt sem Noregur leggur á erlendu tekjurnar.

Almannatryggingar

Það eru sérstakar reglur sem segja til um í hvaða landi þú átt að vera tryggður. Þú þarft að hafa samband við NAV í Noregi eða tryggingastofnun í því landi sem þú vinnur í til að fá nánari upplýsingar.

Veldu hitt landi hr:   Danmörk | Ísland | Finnland | Svíþjóð