Skattframtalið

Eftirfarandi á við þig sem ert búsettur í öðru norrænu landi og sem hefur tekjur í Finnlandi.

Hverjir eiga að skila skattframtali?

Allir einstaklingar sem búsettir eru í Finnlandi og hafa á almanaksárinu haft skattskyldar tekjur, skulu skila framtali næsta ár á eftir.

Einstaklingar sem eru heimilisfastir erlendis og hafa því takmarkaða skattskyldu í Finnlandi skila finnsku skattframtali eingöngu ef þeir á skattári hafa átt fasteign eða íbúðarhúsnæði í Finnlandi eða hafa stundað atvinnurekstur með fasta starfsstöð. Sama á við um þá sem hafa fengið greiddan lífeyri frá Finnlandi, eða aðrar tekjur sem viðkomandi hefur óskað eftir að verði skattlagðar skv. almennum skattþrepum, þeir þurfa að skila framtali.

Fyrirfram útfyllt framtal á MyTax-service

Skattyfirvöld senda einstaklingum búsettum í Finnlandi póstleiðis fyrirfram útfyllt framtal. Hinsvegar ef þörf er á leiðréttingum gerir þú þær á MyTax eða á eyðublöðum á vero.fi. Í framtalinu koma fram upplýsingar sem skattayfirvöld hafa aflað hjá finnskum greiðendum t.d. um tekjur, lífeyrir, arð o.þ.h. Ef skattskyldur einstaklingur staðfestir að upplýsingarnar séu réttar og engu þurfi að bæta við, þarf hann ekki að gera neitt.

Hvað á að gera ef fyrirfram útfyllt framtal skilar sér ekki?

Ef einstaklingurinn hefur flutt til Finnlands í lok tekjuárs, er honum ekki sent fyrirfram útfyllt framtal. Þá þarft að senda skattframtali á eyðublaði. Þú getur prentað eyðublaðið út á vero.fi.  Það þarf að fylla út eyðublaðið og senda til næstu skattstofu í byrjun maí. Álagningaseðill er svo sendur heim til hans í síðasta lagi í nóvember sama ár og álagningu lýkur.

Öll skatteyðublöð í Finnlandi eru hægt að fá á  finnsku eða sænsku. Launaframtal er einnig hægt að fá á ensku.

Skipti á upplýsingum milli skattyfirvalda

Til að tryggja rétta skattlagningu hafa öll Norðurlöndin þá reglu að vinnuveitendur, bankar o.fl. eigi að senda skattyfirvöldum upplýsingar um greidd laun, lífeyri, arð, vexti o.fl. Hér eiga m.a. að koma fram nöfn viðtakenda og heimilisföng, hvernig tekjur er um að ræða ásamt fjárhæð.  Þessi upplýsingaskylda gildir einnig um greiðslur til einstaklinga sem búsettir eru í öðrum löndum.

Til að tryggja nákvæma skattlagningu hafa öll Norðurlöndin komið sér saman um að skiptast á upplýsingum. Upplýsingaskiptin fara fram árlega milli sérvaldra eininga hjá skattyfirvöldum og gegnum öruggar boðleiðir. Mikið magn upplýsinga streymir milli Norðurlandanna. Þessar upplýsingar eru notaðar af skattyfirvöldum í búsetulandinu til að hafa eftirlit með því að einstaklingar með starfsemi yfir landamæri hafi uppfyllt skyldur sínar um að upplýsa um tekjur og eignir erlendis.