Heimilisfesti samkvæmt tvísköttunarsamningi á milli Norðurlanda

Ef þú starfar eða dvelur í öðru Norðurlandi í ákveðinn tíma telst þú hafa skattalegt heimili í dvalarríkinu og berð þar fulla skattskyldu. Á sama tíma getur þú borið fulla skattskyldu í heimalandinu. Ef þú berð fulla skattskyldu í tveimur löndum telst þú skattskyldur í báðum löndunum af öllum þínum tekjum og eignum. Í þannig tilvikum er nauðsynlegt að fá úr því skorið í hvoru landinu þú skulir teljast heimilisfastur samkvæmt ákvæðum í tvísköttunarsamningum á milli Norðurlandanna.

Hvar þú telst heimilisfastur, samkvæmt ákvæðum tvísköttunarsamninganna, sker úr um hvort landið hefur rétt til að skattleggja tekjur og eignir. Þú berð fulla skattskyldu í því ríki sem samningurinn segir til um. Það fer eftir ákvæðum í samningnum hvaða tekjur skuli skattleggja í vinnuríkinu. Ef tekjur mega skattleggjast bæði í atvinnuríkinu og í heimalandinu, er það heimalandið sem skal taka taka tillit til tvísköttunar við álagningu.

Samkvæmt ákvæðum tvísköttunarsamninganna telst þú búsettur í því landi þar sem þú hefur húsnæði til umráða. Ekki skiptir máli hvort þú átt húsnæðið sem þú býrð í eða leigir það. Hafir þú fasta búsetu í báðum löndum, telst þú búsettur í því landi þar sem þú hefur ríkari persónulega hagsmuni og fjárhagslegar skuldbindingar. Með persónulegum og fjárhagslegum skuldbingindum er til dæmis átt við maka og börn á framfæri undir 18 ára aldri, svo og aðrar félagslegar skuldbindingar, atvinnu- eða fjárhagslegar. Ef ofangreint á ekki við eða þú hefur ekki fasta búsetu í neinu landanna telst þú búsettur í því ríki þar sem þú dvelst að staðaldri.