Býrð þú í öðru norrænu landi og átt hlutabréf o.fl. í Svíþjóð?

Þessar upplýsingar eru ætlaðar þér sem býrð í öðru norrænu landi og átt hlutabréf í viðskiptum eða hlutdeildarskírteini í fjárfestingarsjóðum í Svíþjóð og fjalla eingöngu um skattlagningu af tekjum af þessum hlutabréfum eða hlutdeildarskírteinum. 

Arður

Skattlagning í Svíþjóð

Ef þú færð arð af sænskum hlutabréfum er lagður á þig sérstakur staðgreiðsluskattur, svokallaður „kupongskatt", í Svíþjóð. „Kupongskatturinn" er dreginn af við útborgun arðsins og er endanlegur skattur, þannig að ekki þarf að skila skattframtali í Svíþjóð. „Kupongskattur" af arði af hlutabréfum í eigu aðila sem búsettir eru erlendis er venjulega 30%, en samkvæmt norræna tvísköttunarsamningnum er ekki heimilt að skattleggja arð með hærri % en 15%. (Ef þú ert með ótakmarkaða skattskyldu í Svíþjóð, t.d. vegna verulegra tengsla þar eftir flutninginn þaðan, átt þú að skila skattframtali í Svíþjóð. Þú skilar þá fjármagnstekjuskatti af arðinum en hann á einungis að vera 15% en ekki 30% eins og almennt gildir).

Ef fyrir mistök hefur verið innheimtur of hár „kupongskattur", 30% í stað 15%, getur þú óskað eftir endurgreiðslu á mismuninum hjá skattstofunni í Ludvika. Það er gert á eyðublaði SKV 3740. Ef fyrir mistök hefur verið innheimtur venjulegur 30% tekjuskattur, skalt þú tilkynna bankanum um að þú sért ekki lengur búsettur í Svíþjóð.

Með arði er einnig átt við tekjur af hlutdeildarskírteinum í fjárfestingarsjóðum (t.d. hlutabréfasjóðum, blönduðum sjóðum og vaxtasjóðum).

Skattlagning í heimalandinu

Arður er einnig skattskyldur í heimalandi þínu. Til að koma í veg fyrir tvísköttun verður þú að óska eftir frádrætti í heimalandinu móti þeim skatti sem þú hefur þegar greitt í Svíþjóð.

Söluhagnaður

Ef þú hefur fjármagnstekjur af sölu sænskra hlutabréfa í viðskiptum eða hlutdeildarskírteina í sænskum sjóðum, eru þær tekjur ekki skattlagðar í Svíþjóð hafir þú aldrei verið búsettur þar. Skattlagning fjármagnsteknanna fer fram í heimalandi þínu, eftir þeim reglum sem þar gilda.

Hafir þú áður verið búsettur í Svíþjóð, má einnig Svíþjóð, samkvæmt norræna tvísköttunarsamningnum, í ákveðnum tilvikum skattleggja hagnað af sölu hlutabréfa í sænskum fyrirtækjum. Forsendan fyrir því að þessar fjármagnstekjur séu skattlagðar í Svíþjóð er að þú hafir verið búsettur í Svíþjóð og að salan hafi átt sér stað árið sem þú fluttir lögheimili þitt til annars norræns lands samkvæmt norræna skattasamkomulaginu eða á næstu 10 árum eftir flutningsárið. Sama gildir við sölu á hlutdeildarskírteinum í sænskum fjárfestingasjóðum ef þú ert með ótakmarkaða skattskyldu t.d. vegna verulegrar tengsla við Svíþjóð eftir flutninginn þaðan. Í báðum tilvikum má Svíþjóð eingöngu skattleggja þá verðmætaaukningu sem átti sér stað áður en þú fluttir lögheimili þitt til hins norræna landsins sem þýðir að eingöngu þau hlutabréf og hlutdeildarskírteini sem þú áttir fyrir flutninginn frá Svíþjóð má skattleggja í Svíþjóð.

Frá og með tekjuárinu 2009 skattleggur Svíþjóð einnig söluhagnað af erlendum hlutabréfum. Skattlagningin fer fram á sama tíma og skattlagning söluhagnaðar af sænskum hlutabréfum og með sömu takmörkunum hvað varðar verðmætaaukningu. Ef þú ert með takmarkaða skattskyldu í Svíþjóð er forsendan fyrir skattlagningu sú að þú hafir verið með takmarkaða skattskyldu í Svíþjóð þegar hlutabréfin voru keypt (eða þú fékkst hlutabréfin í t.d. arf, að gjöf eða í skiptum)

Heimaland þitt hefur einnig rétt á að skattleggja fjármagnstekjur vegna sölu hlutabréfa í sænsku félagi eða hlutdeildarskírteinum í sænskum sjóðum. Séu fjármagnstekjurnar skattlagðar bæði í Svíþjóð og heimalandi þínu, er komið í veg fyrir tvísköttun með því að þú óskir eftir frádrætti í heimalandinu móti þeim skatti sem þú hefur þegar greitt í Svíþjóð.

Í Svíþjóð er arður af hlutabréfum skattlagður sem fjármagnstekjur og er skatturinn 30%  (fyrir hlutabréf og hlutdeildarskírteini sem eru ekki í viðskiptum og hlutabréf í einkahlutafélögum gilda sérstakar reglur). Hafir þú selt einhver hlutabréf með hagnaði en önnur með tapi, átt þú rétt á að draga tapið frá hagnaðinum. Sé samt sem áður um tap að ræða, færð þú 70% frádrátt á því. Nánari upplýsingar finnur þú í bæklingnum „Försäljning av aktier" (nr. SKV 332) sem finna má á heimasíðu sænska skattsins skatteverket.

Sért þú skattlagður vegna fjármagnstekna í Svíþjóð, verður þú að skila skattframtali í Svíþjóð.

 

Veldu hitt landi hr:   Danmörk | Ísland | Noregur | Finnland |