Skattkort

Hvað er skattkort?

Skattkortið sýnir hvort það ert þú eða vinnuveitandinn sem á að borga inn skattinn. Sænskir vinnuveitendur og erlendir með fasta starfsstöð í Svíþjóð eru skyldugir að draga staðgreiðslu skatts frá launum og borga hana inn vegna starfsmanna í Svíþjóð. Þessi skylda hvílir ekki á vinnuveitendum sem ekki eru með fasta starfsstöð hér. Í þeim tilvikum verður launþeginn sjálfur að sjá um innborgunina. Þeir sem eru með eigin rekstur borga einnig inn skattinn sjálfir.

A-skattur

Ef þú ert launþegi og vinnuveitandinn er sænskur eða erlendur með fasta starfsstöð í Svíþjóð greiðir þú A-skatt. Vinnuveitandinn dregur skattinn frá laununum og greiðir einnig tryggingagjöld (vinnuveitendagjöld). Lífeyrisþegar greiða yfirleitt einnig A-skatt.

 SA-skattur (sérstakur A-skattur)

Ef vinnuveitandi þinn er erlendur án fastrar starfsstöðvar í Svíþjóð átt þú að borga inn skattinn mánaðarlega í formi SA-skatts. Ef sænskar almannatryggingar gilda um þig getur þú samið við vinnuveitandann um að þú borgir líka tryggingagjöldin. Hluthafi í sameignarfélagi á einnig að borga skatt og eigið iðgjald af sínum hluta hagnaðarins sem SA-skatt. Ef þú verður skattskyld(ur) vegna fjármagnstekna í Svíþjóð og sá sem borgar út heldur ekki eftir staðgreiðslu átt þú að greiða skattinn sem SA-skatt.

F-skattur

Rekstraraðilar með rekstur í eigin nafni hafa yfirleitt F-skattkort. Það þýðir að rekstraraðili greiðir sjálfur sína skatta og tryggingagjöld (eigið iðgjald) mánaðarlega.

Hvort sem þú greiðir A-, SA- eða F-skatt á skatturinn, sem þú eða vinnuveitandinn borgar inn á árinu, að vera eins nálægt endanlegri álagningu og hægt er. Maður getur ekki valið sjálfur að greiða skattinn eftir á.

Hvernig sótt er um skattkort  eða samþykki til F-skatts?

A-skattkort er venjulega sent út eftir beiðni um það. Ástæðan er sú að langflestir þeirra, sem borga út laun eða þóknanir, fá tilkynningu um skattaform starfsmanna beint frá Skatteverket. Ef þú þarft hins vegar á A-skattkorti að halda getur þú beðið um það hjá Skatteverket

Á eyðublaði SKV 4314, Preliminär självdeklaration, skilar þú inn upplýsingum til að Skatteverket geti látið þig fá SA-skatt og reiknað út hversu mikið þú átt að borga á mánuði. Eyðublaðið er á skatteverket.se. Sótt er um F-skatt á eyðublaði SKV 4620 eða SKV 4632, Skatte- och avgiftsanmälan. Eyðublaðið er á skatteverket.se

Yfirfærsla á skattgreiðslum á milli norrænu landanna (aðstoðarsamningurinn)

Þegar þú stundar vinnu í öðru norrænu landi en þú ert búsettur, fyrir vinnuveitanda sem einnig er heimilisfastur í heimalandi þínu, skalt annað hvort þú eða vinnuveitandi þinn skila eyðublaðinu NT 1 eða NT 2 til skattstofunnar sem vinnuveitandinn tilheyrir. Það er gert til að hægt sé að standa skil af staðgreiðslu í réttu landi. Nota skal eyðublaðið NT 1 þegar skattlagning á að eiga sér þar sem þú býrð, t.d. ef þú dvelur skemur en 183 daga í vinnuríkinu. Nota skal eyðublaðið NT 2 þegar skattlagningin skal eiga sér stað í vinnuríkinu, t.d. ef launagreiðandinn hefur fasta atvinnustöð í vinnuríkinu, eða í vissum tilvikum þegar þetta er spurning um útleigu á vinnuafli.

Í vissum tilvikum geta skattyfirvöld yfirfært skattgreiðslur á milli landa samkvæmt aðstoðarsamningnum. Samningurinn felur í sér að ef í ljós kemur að skattur, sem haldið hefur verið eftir af launatekjum í einu norrænu ríki, á í raun að greiðast í öðru norrænu ríki, skal fyrrnefnda ríkið yfirfæra skattinn til þess ríkis. Millifærður skattur skal greiðast tímanlega þannig að þú þurfir ekki greiða kostnað og vexti af millifærðu skattgreiðslunum.

Í þeim tilvikum sem millifærði skatturinn nægir ekki fyrir skattgreiðslunum í hinu landinu þá þarft þú sjálfur að greiða mismuninn með tilheyrandi kostnaði og vöxtum af þeim hluta greiðslunnar.