Innheimtu - og skattseðill

Skattareikningur

Allir þeir sem eiga að greiða einhvers konar skatta eða gjöld fá eigin skattareikning hjá Skatteverket. Reikningurinn nær yfir svo til alla skatta og gjöld sem Skatteverket sér um en ekki lækkun vegna sérstaks tekjuskatts fyrir erlendis búsetta (SINK). SINK er staðgreiðsluskattur sem þú greiðir af tekjum sem þú aflar, til dæmis launum og lífeyri, ef fólk er með takmarkaða skattskyldu.

Á reikninginn eru færðar allar skattainnborganir þínar, staðgreiðsla og endanleg álagning, samkvæmt álagningarseðli.

Einstaklingar fá alla jafna upplýsingar um skattareikning sinn einu sinni á ári og þá í tengslum við endanlega álagningu. Hvort sem það er vinnuveitandinn eða þú sjálf(ur) sem greiðir skattinn reglulega yfir árið á innborgaður skattur að vera eins nálægt endanlegri álagningu og hægt er.

Álagningarseðill

Þegar búið er að fara yfir framtal þitt er endanleg álagning reiknuð út. Útreikningurinn kemur fram á álagningarseðlinum.

Það fá ekki allir álagningarseðilinn á sama tíma. Þeir eru sendir út við fjögur tækifæri, í apríl, júní, ágúst eða desember. Hafi skattyfirvöld tekið skattframtal þitt til rannsóknar verður send ákvörðun þegar rannsókninni er lokið og samhliða því færð þú einnig álagningarseðil. Þetta þýðir að þú gætir fengið álagningarseðilinn á öðrum tíma en nefndur er hér á undan.

Vangreiddur skattur

Ef endanleg álagning er hærri en sá skattur sem greiddur hefur verið á árinu (af vinnuveitanda þínum eða þér sjálfum) þarft þú að greiða mismuninn. Vextir á skuldina eru reiknaðir daglega. Þú hefur u.þ.b. 90 daga til að greiða frá og með dagsetningu ákvörðunarinnar eins og kemur fram á álagningarseðlinum.

Ef þú áætlar að hallinn á skattareikningnum verði í hæsta lagi SEK 30.000 getur þú losnað við að greiða vextina ef þú borgar inn þennan hluta þannig að hann sé bókfærður á bankagíróreikning Skatteverket fyrir 3 maí á álagningarárinu.

Ef þú áætlar að hallinn á skattareikningnum verði yfir SEK 30.000 átt þú að greiða það sem upp á vantar þannig að það sé bókfært á bankagíróreikning Skatteverket í síðasta lagi 12. febrúar álagningarárið. Þá losnar þú við að greiða vexti af þeim hluta.

Ef þú greiðir skattareikninginn frá öðru landi getur þú fengið upplýsingar um hvernig það er gert á skatteverket.se

Ofgreiddur skattur

Ef fram kemur á reikningsyfirlitinu sem fylgir álagningarseðlinum að þú hafir greitt of mikið í skatt, færð þú endurgreiðslu ef inneignin er yfir SEK 100. Skilyrði fyrir endurgreiðslunni er að þú hafir látið skrá bankareikning hjá skattyfirvöldum. Nái inneignin ekki SEK 100 stendur upphæðin áfram inni á skattareikningnum þínum.

Þú þarft að tilkynna sænskum skattyfirvöldum um bankareikning til að fá peningana þína sjálfkrafa til baka. Annars munu þeir vera á skattareikningi þínum þar til þú óskar eftir greiðslu og þegar þú gerir það þarft þú að tilkynna um bankareikning, sænskan eða erlendan, til að fá greiðsluna. Þú getur fengið nánari upplýsingar um hvernig þú átt að senda tilkynningu á skatteverket.se